Deild sjúkraþjálfunar er staðsett í afar björtu, rúmgóðu og aðlaðandi húsnæði á 1. hæð heimilisins. Þar eru móttaka, vel útbúinn tækjasalur, rými með meðferðarklefum, bekkjum, göngubrú ásamt ýmsum útbúnaði til sjúkraþjálfunar. Á deildinni er einnig sundlaug og heitir pottar.
Sjúkraþjálfunin er opin alla virka daga frá kl. 08:00 – 15:30 og sundlaugin frá 08:15 – 11:30. Lokað er í hádeginu.
Sjúkraþjálfarar vinna náið með öðru starfsfólki heimilisins og veita margskonar sérhæfða meðferð. Þeir meta færni og getu heimilismanna, búa til viðeigandi æfingaáætlanir, endurhæfa eftir brot og önnur áföll, sinna verkjameðferð, sogæðameðferð, fræðslu og veita alla almenna sjúkraþjálfun bæði í húsnæði sjúkraþjálfunar og uppi á deildum. Þeir útvega og stilla göngugrindur, panta hjólastóla og fylgihluti þeirra, taka mál og panta stuðningssokka og hafa gjarnan milligöngu við aðra fagaðila þegar útvega þarf sérstaka skó og spelkur. Sjúkraþjálfarar sitja vikulega teymisfundi með öðru fagfólki, skrá í Sögukerfið og taka þátt í framkvæmd RAI-mats.
Sjúkraþjálfarar hafa aðstoðarfólk sem fylgir heimilismönnum í og úr sjúkraþjálfun, aðstoðar íbúa og aðra gesti við æfingar í tækjasal, skráir niður fjölda heimsókna, gefur heita bakstra og hjálpar sjúkraþjálfurum við margt annað í þeirra daglega starfi.
Móttaka sjúkraþjálfunar: s. 585-3080. Netfang: endurhf[hja]hrafnista.is
Deildarstjóri sjúkraþjálfunar er Íris Huld Hákonardóttir, iris.hakonardottir[hja]hrafnista.is
Íþróttastarf
Einn íþrótta- og jógakennari er starfandi við deildina. Hann stjórnar leikfimi í Menningarsal 4x í viku og eru þeir tímar opnir bæði heimilismönnum og gestum í dagvist. Tvisvar í viku stýrir hann hópleikfimi í sundlauginni, 2 tímar í senn, og veitir einnig einstaklingsmeðferð í lokuðum kvenna-og karlatímum. Íþróttakennarinn býður upp á hugleiðslu og slökun 1x í viku á hverri hæð. Hann heldur utan um og stjórnar Kvennahlaupi í júní, jólasundi í desember og púttmótum á sumrin. Auk þess fer íþróttakennarinn 2x í viku út í Hraunvang 1 og 3 og er með leikfimi fyrir íbúa í þjónustuíbúðunum. Hann aðstoðar einnig og leiðbeinir íbúum og gestum í tækjasal eftir atvikum.
Íbúar á grenndarsvæði heimilisins sem eru í DAS – klúbb hafa aðgang að tækjasal og sundlaug samkvæmt ákveðnum reglum. Nánari upplýsingar er hægt að fá í sjúkraþjálfun.
Íþróttakennari er Helena Björk Jónasdóttir.