Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 13. ágúst 2021 - Gestahöfundur er Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Ísafold

 

Í miðju covidfárinu hugsa ég stundum um hvað við vorum virkilega að gera áður en þetta allt skall á, líf okkar hljóti að hafa verið nokkuð einfalt. Mér sýnist að ég hafi skrifað fyrstu föstudagsmolana mína árið 2010 og svo á hverju ári eftir það, þeir gefa ágæta mynd af því hvað mér var hugleikið það árið.

Þegar ég skrifa molana árið 2010 vorum við búin að vera starfandi í Boðaþingi í 3 vikur og fyrirsögnin var „Hvar er húfan mín, hvar er hettan mín, hvar er falska gamla fjögurra gata flautan mín“sem sagt, við fundum ekki neitt í öllu kaosinu, en auðvitað lyftu samstarfsmenn mínir grettistaki og komu Boðaþinginu í stand.

Árið 2012 var Sjómannadagurinn ofarlega í huga og það mikla starf sem sjómenn höfðu lagt af hendi til aldraðara í bland við nýja nálgun sem við vorum að innleiða í Boðaþingi „Þó við viljum vera framsýn, leiðandi, talsmenn breytinga, framfara og opin fyrir nýjungum er hollt að staldra við og skoða upprunann, hvar byrjaði þetta allt saman, hver var hugmyndin og hvert hefur hún leitt okkur?“ skrifa ég.

Það var svo árið 2013 sem ég gerist mjög tæknivædd og skrái mig á Fésbókina og í framhaldi var gerð lokuð síða fyrir Boðaþingið, þarna var allt í einu komin vettvangur til að ná til 80 starfsmanna hratt og vel, þvílík bylting, ég tek það fram að ég eigi 101 vin á Fésbókinni, ég á núna 272 vini ?

2014 fór ég á öldrunarráðstefnu í Gautaborg ásamt 1000 öðrum þátttakendum frá öllum norðurlöndunum. Fyrirlesararnir voru sérfræðingar í öldrunarmálum sem voru að gera rannsóknir á hvað getur gert skjólstæðingum okkar lífið og tilveruna betri. Það var nú aldeilis gaman þegar við gátum farið til útlanda og hitt 1000 manns, munið þið eftir því?

Árið 2015 hefur verið gott ár, þá skrifa ég molana í sumarfríi, er á pallinum mínum í Hafnarfirði í sól og blíðu og var á leiðinni  til Spánar, það var þá. Ég er líka að hvetja ættingja og vini að koma í kaffi á Nesvöllum og Hlévangi í tilefni Sjómannadagsins, það var nú gaman þegar við gátum öll verið saman ?

2016 er ég að fjasa yfir allt of lágum daggjöldum og regluverkinu sem okkur er gert að starfa eftir, ég gæti í raun sent þá mola aftur inn, því allt þar á við enn.

Við fengum Elízu Reid í heimsókn á Ísafold árið 2017 og var titillinn á molunum „Maður er manns gaman“ þarna óraði mér ekki fyrir, frekar en öðrum að einangrun, sóttkví, jólakúlur, sumarkúlur, ferðtakmarkanir og fjöldatakmarkanir yrðu okkur töm orð.

2020 skrifa ég um sumarafleysingar og þann ferska blæ sem sumarstarfsmenn koma með á heimilin, merkilegt nokk minnist ég lítið á Covid aðeins að nú skulum við ferðast innanlands og að við værum öll almannavarnir.

Eitt sumar enn í þessum undarlegu aðstæðum, ég hlakka til að skrifa mola eftir ár ef Guð og lukkan lofar. Ég er sannfærð um að þá verður bara eitthvað skemmtilegt að skrifa um.

 

Hrönn Ljótsdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu Ísafold.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur