Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 3. september 2021 - Gestahöfundur er Aríel Pétursson nýr stjórnarformaður Sjóamannadagsráðs

Sterk saga - stór framtíð

 

Kæra samstarfsfólk og aðrir lesendur,

Þetta er í fyrsta sinn sem mér hlotnast sú ánægja að fá að skrifa ykkur nokkrar línur í Föstudagsmolum og auðvitað mun ég reyna að haga þeim þannig til frambúðar að þið endist til að lesa til enda. Til þess eru væntanlega aðallega tvö trix: Að hafa þetta nógu stutt annars vegar og nógu skemmtilegt hins vegar. Það er svo ykkar að meta hvort ég uppfylli þau skilyrði að þessu sinni!

Mér var sýndur sá mikli heiður og það mikla traust að taka við formennsku í Sjómannadagsráði af Hálfdani Henryssyni fyrr í þessari viku. Á undan honum, og að honum meðtöldum, hefur hvert stórmennið á fætur öðru gegnt hlutverkinu í rúmlega áttatíu ára sögu félagsins. Í mínum huga eru þessir menn, og hafa alltaf verið, hálfgerðar goðsagnir. Ég finn annars vegar til smæðar minnar og auðmýktar þegar mér er núna treyst fyrir keflinu en ég finn líka hvernig þessi sterka saga okkar leggur góðan grunn að þeirri stóru framtíð sem bíður Sjómannadagsráðs í stöðugt stærri framtíð öldrunarþónustu á Íslandi.

Á þeim vettvangi liggja skyldur okkar fyrst og fremst auk þess frá frumbernsku að heiðra hinn árlega sjómannadag þjóðarinnar með ýmsum uppákomum. Og í umhyggju fyrir öldruðum kunnum við okkar fag og höfum staðið af kostgæfni vörð um ævikvöld sjómanna, og síðar alls almennings. Ég veit að forystuhlutverk okkar og stöðug nærvera hefur skipt öldrunarþjónustu á Íslandi miklu máli í gegnum áratugina og á því verður vonandi engin breyting á þeirri vakt sem ég hef nú tekið við.

Sjómannadagsráð var stofnað með það í huga að standa fyrir árlegum hátíðisdegi sjómanna. Tilgangurinn var að vekja athygli almennings á þjóðhags- og samfélagslegu mikilvægi stéttarinnar sem var og er enn í dag óumdeilanlega mikið. Einnig voru sjóslys tíð á árum áður og manntap mikið og hlutverk Sjómannadagsins var jafnframt að vinna að öryggismálum greinarinnar, efla samhug meðal sjómanna og tengdra stétta og minnast sjómanna sem látist höfðu af slysförum til sjós.

Fyrsti Sjómannadagurinn var haldinn 6. júní 1938 og varð ráðinu fljótt ljóst að málefni þess nutu einstaklega mikils velvilja og stuðnings almennings. Hátíðarhöld gengu vel og almenningur skemmti sér konunglega við að halda upp á þennan dag sjómanna. Á þessum árum var ekki um auðugan garð að gresja í málefnum aldraðra. Í stefnuskrá Sjómannadagsráðs segir: ,,... allstór hundraðshluti þeirra manna, sem hafa gert farmennsku eða fiskveiðar að lífsstarfi sínu, eru eignalausir einstæðingar á elliárunum, sem ekki komast að öðrum störfum hjá þjóðfélaginu... ...Vér lítum svo á, að langt muni í land til þess að slík elliheimili fyrir sjómenn verði reist af hinu opinbera, ríki eða bæjum, og teljum því, að sjómannastéttinni gefist hér kærkomið tilefni til að beita sér fyrir fjársöfnun til stofnunar elli- og hvíldarheimilis fyrir aldraða sjómenn.”

Þessi hugsjón og skýra stefna leiddi til þess að Sjómannadagsráð stóð fyrir víðtækri og margþættri fjáröflunarstarfsemi til að reisa dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn. Meðal fjáröflunarleiða voru merkjasala, kabarettsýningar, kvikmyndasýningar (síðar Laugarásbíó) og sala happdrættismiða DAS með hinum ýmsu vinningum (fiskibátum, dráttarvélum, bílum o.fl.). Einnig hafa einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök verið öflugir bakhjarlar og stutt vel við uppbyggingu dvalarheimilanna í gegnum tíðina.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag eru Hrafnistuheimilin orðin átta talsins með um fjórðung af öllum hjúkrunarrýmum landsins, með fjölbreyttri þjónustu fyrir aldraða, t.a.m. hvíldarinnlögn, dagdvöl, dagþjálfun og dagendurhæfingu. Dótturfélag Sjómannadagsráðs, Naustavör, hefur staðið fyrir uppbyggingu um 260 leiguíbúða fyrir aldraða með aðdáunarverðri hugsjón að leiðarljósi sem við köllum Lífsgæðakjarnann. Íbúðirnar tengjast allar hjúkrunarheimilunum og eru langflestar innangengar þjónustumiðstöðvunum sem styður við og auðveldar íbúum sjálfstæða búsetu til muna. Einnig hefur Sjómannadagsráð byggt aragrúa íbúða og raðhúsa í nánd við hjúkrunarheimilin sem seld hafa verið á almennum markaði.

Mannauður Hrafnistu og annarra dótturfélaga Sjómannadagsráðs er okkar helsti lykill að velgengni. Ég segi það fullum fetum að hér starfar einvalalið sem vinnur af lífi og sál að vinna starf sitt vel. Samstaðan er mikil og ég upplifi Hrafnistu og önnur dótturfélög Sjómannadagsráðs sem virkilega lifandi og skemmtilegan vinnustað. Hugmyndaauðgi starfsfólks virðist vera ótæmandi og Hrafnista hefur alla sína tíð verið leiðandi afl í sínum geira og mun hvergi bregða af leið.

Ég vil þakka Hálfdani Henryssyni fyrir samstarfið og óska honum og hans fjölskyldu velfarnaðar og gæfu um ókomna tíð. Ég hlakka til samstarfsins við stórkostlegt starfsfólk okkar og stjórnendur, heimilisfólk og aðstandendur þeirra fjölmörgu sem njóta þjónustu okkar á hverjum degi, alla daga ársins, allan sólarhringinn. Á grundvelli farsællar sögu munum við halda áfram að hugsa stórt um langa framtíð.

 

Aríel Pétursson,

Stjórnarformaður Sjómannadagsráðs

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur