Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Föstudagsmolar 10. september 2021 - Gestahöfundur er Lilja Harðardóttir, sérfræðingur á mannauðssviði Hrafnistu

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2021_Mannaussvi1_molar-Lilja-Harar.jpeg

Hvað eruð þið eiginlega að gera á þessu mannauðssviði?

Þessa spurningu höfum við sem störfum á þessu sviði oft fengið að heyra og kannski skiljanlega. Störf á mannauðssviði eru nefnilega mörg hver nokkuð ósýnileg og því að vissu leyti erum við starfsmennirnir á bak við tjöldin. Ég ætla að gera tilraun til að varpa ljósi á helstu verkefni sviðsins.  

En hvað þýðir orðið mannauður? Samkvæmt íslenskri orðabók merkir það „þau verðmæti sem felast í hugviti, þekkingu og reynslu starfsmanna“. Verðmæti fyrirtækja eru nefnilega ekki eingöngu bundin í húsnæði, eignum eða tækjakosti. Í fyrirtæki eins og okkar má sannarlega segja að  mannauður sé ein dýrmætasta auðlindin því án starfsfólks er engin starfsemi. Það er því mikilvægt að Hrafnista hafi öflugt mannauðssvið til að huga að þessari dýrmætu auðlind.

Verkefni mannauðssviðs snúa öll með einum eða öðrum hætti að starfsfólki Hrafnistu. Við veitum ráðgjöf og stuðning sem stuðlar að faglegri og samræmdri afgreiðslu mála sem tengjast starfsmönnum allt frá upphafi starfs til starfsloka. Ekkert svið er eyland og eru mörg verkefni mannauðssviðs unnin í náinni samvinnu við t.d. launadeild og heilbrigðissvið Hrafnistu. Ef við stiklum á stóru yfir helstu verkefni síðasta vetrar þá fór fram mikil vinna í  styttingu vinnuvikunnar bæði hjá dagvinnu og vaktavinnufólki og er þeirri vinnu ekki lokið enda þarf sífellt að meta hvernig gengur og sníða af agnúa ef einhverjir eru. Á sama tíma var verið að undirbúa jafnlaunavottun þar sem öll störf voru skilgreind og flokkuð í starfafjölskyldur og launagreining gerð til að kanna kynbundinn launamun. Mannauðssvið tók yfir allar ráðningar til Hrafnistu sem voru áður að hluta hjá ráðningarstofu úti í bæ og rafrænar undirskriftir voru innleiddar. Kjara- og stofnanasamningar voru undirritaðir við Félag hjúkrunarfræðinga og Eflingu, Hlíf og VSFK. Fræðslumál tóku stórt stökk í rafræna vegferð. Hrafnistuskólinn óx mikið, stjórnenda-, hjúkrunar- og vaktstjóraskóli voru haldnir auk ýmissa minni fræðsluerinda. HÉR er tengill á 1. tölublað fræðslufrétta Hrafnistu. Nýtt aðgangskortakerfi var tekið í notkun á nokkrum heimilum og höfum við að mestu tekið yfir útgáfu af starfsmanna kortum.

Verkefni á borð við vinnustaðagreiningar, gerð mönnunarmódela, útgáfu starfsþróunaráætlunar, jafnréttisáætlunar, starfsmanna- og stjórnendahandbókar eru á borði sviðsins ásamt útgáfu á ýmsum verklarsreglum sem má finna í gæðahandbók Hrafnistu. Þá eru ótaldar allar fyrirspurnirnar og oft flóknu starfsmannamálin sem berast sviðinu á hverjum degi. Þar er til dæmis verið að leita ráða vegna kjarasamningsbundinna réttinda, launaröðunar, vinnutíma og samskiptamála sem við kappkostum við að aðstoða með  fljótt og vel. Þegar við höldum að „við höfum séð allt“ kemur eitthvað nýtt inn á borð til okkar sem þarfnast úrlausnar. Þetta mannlega á sér nefnilega fá takmörk.

Starfsmenn mannauðssviðs eru til ráðgjafar og stuðnings við stjórnendur og starfsmenn og hefur hvert Hrafnistuheimili „sinn“ mannauðsráðgjafa.  Mannauðsráðgjafar eru með skipulagða viðveru á heimilunum eins og hentar þannig að bæði stjórnendur og starfsmenn geti leitað til þeirra. Í vetur skipta starfsmenn sviðsins heimilunum á milli sín svona:

Hrafnista Laugarási – Dagmara Adamsdóttir

Hrafnista Boðaþingi – Auður Böðvarsdóttir

Hrafnista Hraunvangi – Lilja Harðardóttir

Hrafnista Sléttuvegi,  Ísafold og Sjómannadagsráð – Hjörtur Hjartarson

Hrafnista Nesvöllum, Hlévangi, Skógarbæ og Happdrætti DAS – Guðlaug Dagmar Jónasdóttir

Jakobína H Árnadóttir, mannauðsstjóri leiðir síðan sviðið í heild auk þess að verkefnastýra nokkrum af stóru verkefnum sviðsins.

 

Lilja Harðardóttir

Sérfræðingur á mannauðssviði Hrafnistu

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur