Top header icons

Fyrir starfsfólk
Örugg skjalamótttaka Örugg skjalamótttaka Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 
 
 

Föstudagsmolar 21. janúar 2022 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

Kæru samstarfsfélagar,

 

Það eru áhugaverðir tímar framundan, nýr heilbrigðisráðherra og ný ríkisstjórn, ný verkefni og ný tækifæri.

Ég vil byrja á því að þakka nýjum heilbrigðisráðherra fyrir að koma sterkur inn fyrir hönd hjúkrunarheimila þegar við höfum upplifað virkilega erfiða tíma síðastliðin ár. Við finnum fyrir því að ráðherra hefur raunverulegan áhuga á að setja sig inn í þjónustu og rekstur hjúkrunarheimila og hann hefur vilja til að bæta þjónustuna. Það eitt vekur von í brjósti um að það séu spennandi tímar framundan. Það er mikilvægt að við öll hugsum upphátt um hvernig hægt sé að takast á við öldrun þjóðarinnar þannig að við getum aukið heilbrigði okkar sem erum að eldast, aukið heilbrigði þeirra sem eru orðnir aldraðir og hvernig við getum svo gripið þá sem þurfa á okkar þjónustu að halda þegar á reynir.

En ef við horfum á daginn í dag þá hefur það ekki farið framhjá neinum að smitum hefur verið að fjölga hratt og auðvitað hefur það mikil áhrif á okkar starfsemi, hvort sem er íbúa eða starfsfólk. Enn og aftur stigið þið starfsmenn og stjórnendur Hrafnistu inn í verkefnið af fullum þunga eins og ykkur einum er lagið, byggið skjöld utan um okkar íbúa og eru hetjurnar okkar. Mig langar að gefa ykkur öllum risastórt knús fyrir ef ég mætti, þar sem risastórt hrós dugar ekki einu sinni til.

Ein stærsta ógnin þessa dagana er sú að ekki sé til starfsfólk sem getur aðstoðað íbúa heimilanna við daglegar þarfir. Því er það okkur á Hrafnistu sem og öðrum hjúkrunarheimilum mikilvægt að heilbrigðisráðherra, í samstarfi við landlækni og sóttvarnarsvið Embætti landlæknis, gaf út undanþágu á sóttkví fyrir starfsfólk hjúkrunarheimila vegna þess mikilvæga hlutverks sem þið gegnið í lífi fólks alla daga, allan sólarhringinn. Við þökkum þeim kærlega fyrir skilninginn.

Þið hafið síðan þessi veira bankaði upp á dyrnar gætt þess að verja ykkur sjálf og lifað í hálfgerðri kúlu í 2 ár. Fyrir það er ég gríðarlega þakklát þar sem ég geri mér grein fyrir að það er ekki sjálfgefið. Ég veit líka að þið eruð að gera það áfram í dag, hvort sem er heima eða í vinnu. Þið eruð að gæta þess að vera með grímu og gæta 2m fjarlægðar ef gríma er tekin niður. Það skiptir sköpum ef einhver okkar mun óafvitandi mæta í vinnu með Covid-19, þar sem við tökum ekki annað starfsfólk með okkur í einangrun ef við fylgjum því verklagi.

Ég ætla að fá að nota tækifærið og senda einnig kveðju á þá starfsmenn sem hafa fengið það verkefni að smitast af Covid-19 og eru nú í einangrun. Farið vel með ykkur og við hlökkum til að fá ykkur tilbaka.

Að lokum sendi ég ykkur baráttukveðjur í þessa vegferð sem við erum lögð af stað í, enn eina Covid-19 bylgjuna. Við höfum sýnt það og sannað að við búum að þrautseigju, baráttuvilja og getu til að sigra þetta verkefni. En síðast en ekki síst búum við á Hrafnistu yfir gríðarlegri reynslu starfsmanna, væntumþykju til hvors annars, samstöðu og faglegum styrk ásamt því að við vitum  hversu mikilvægur hver og einn starfsmaður er.

Starfsafmæli í janúar

Eins og áður er það vel við hæfi að enda föstudagsmolana á því að segja frá formlegum starfsafmælum í okkar stóra starfsmannahóp hér á Hrafnistu.

Í janúar eiga eftirfarandi starfsmenn formleg starfsafmæli:

3 ára starfsafmæli:Í Hraunvangi er það Magdalena Malgorzata Wolska í borðsal. Í Boðaþingi er það Ágústa Ármann. Á Hrafnistu Hlévangi er það Þórunn Sandra Sveinsdóttir. Á Hrafnistu Ísafold eru það Viktoría I. Sigurðardóttir og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir.

5 ára starfsafmæli:Í Hraunvangi er það Ólöf Ásgeirsdóttir í sjúkraþjálfun og Berglind Hulda Jónsdóttir á Hrafnistu Nesvöllum.

10 ára starfsafmæli:Íris Huld Hákonardóttir deildarstjóri í sjúkraþjálfun, Hrafnistu Hraunvangi.

15 ára starfsafmæli:Cecilia Cruz Castro í Dagþjálfun-Viðey á Hrafnistu Laugarási.

20 ára starfsafmæli: Cherry Lind Meguines á Sól-/ og Mánateig Hrafnistu Laugarási og Rannveig Oddsdóttir á Báruhrauni Hrafnistu Hraunvangi.

Til hamingju öll með starfsafmælið og hjartans þakkir fyrir góð störf í þágu Hrafnistu. 

 

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur