Top header icons

Fyrir starfsfólk
Örugg skjalamótttaka Örugg skjalamótttaka Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 
 
 

Föstudagsmolar 4. febrúar 2022 - Gestahöfundur er Elsa Björg Árnadóttir, deildarstjóri á Fossi Hrafnistu Sléttuvegi

Þegar ég hóf störf hjá Hrafnistu fyrst fyrir um 12 árum síðan hafði ég ekki hugmynd um að þetta yrði minn framtíðarvinnustaður. Borðsalurinn og eldhúsið á Hrafnistu í Hraunvangi var mitt fyrsta stopp, en svo lá leið mín tveimur árum síðar í hjúkrunarfræðina. Ég fór þá samhliða skólanum að vinna í aðhlynningu, síðan á hjúkrunarvöktum sem nemi og svo sem fastráðin hjúkrunarfræðingur.

Ég hef alltaf sett mér stór markmið í lífinu og eitt af því var að verða stjórnandi hjá Hrafnistu. Ég er enn töluvert ung að árum og átti nægan tíma til þess að ná þessu markmiði mínu, en í  lok árs 2019 sá ég auglýsta aðstoðardeildastjórastöðu á nýju heimili Hrafnistu við Sléttuveg og lét ég slag standa, leyfði hvatvísinni í sjálfri mér að taka yfirhöndina og sótti um. Það sem ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Ég hef vaxið og dafnað sem einstaklingur og er ótrúlega þakklát fyrir þetta frábæra tækifæri.

Þessi tími sem stjórnandi innan Hrafnistu hefur verið nokkuð óvenjulegur og í raun hef ég ekki fengið þá reynslu að vera stjórnandi í eðlilegum aðstæðum? Eða, hvernig líta eðlilegar aðstæður út í dag?
Við hér á Sléttuveginum settum undir okkur höfuðið og keyrðum í gegnum  opnun á nýja heimilinu samhliða blessuðu veirunni og manni finnst maður rétt að vera ná að rétta úr sér aftur.

Á stjórnendadeginum talaði María Fjóla forstjóri um að við ungu stjórnendurnir þyrftum að passa extra vel upp á okkur svo við lentum ekki á vegg. Ég tengi vel við þetta, því áfram set ég mér stór markmið og hef brennandi áhuga á því sem ég er að gera hér fyrir Hrafnistu. Stundum er erfitt að slökkva á vinnuheilanum þegar hefðbundnum vinnudegi er lokið. En þá kemur göngutúrinn og útiveran sterk inn þar sem ferska íslenska loftið nær að núllstilla heilann og gerir mann tilbúinn í að takast á við úlfatímann með börnunum, eins og góð vítamínsprauta beint í rassinn.

Stundum hugsa ég til baka og spyr mig; hvernig komst maður í gegnum þennan tíma án þess að missa geðheilsuna ?

Jú, ég tel að það sem hefur haldið mér á floti er útivera. Göngutúrinn eftir vinnu og/eða draga börnin út í gulri veðurviðvörun t.d. upp á Helgafell og Búrfellsgjá. Jeppaferðir upp á hálendið klikka ekki þar sem varla er net- eða símasamband og þar sem maður nær algjörlega að kúpla sig út.

Ég hvet alla til að horfa björtum augum fram á við, skella sér í góða göngu og raula með laginu hans Braga Valdimar Skúlasyni ;

„En það styttir alltaf upp, alltaf birtir til, framtíðin mun falla þér í vil!“

 

Elsa Björg Árnadóttir, deildarstjóri á Fossi Hrafnistu Sléttuvegi. 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur