Top header icons

Örugg skjalamótttaka Örugg skjalamótttaka Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 
 
 

Föstudagsmolar 13. apríl 2022 - Gestahöfundur er Alma Ýr Þorbergsdóttir, deildarstjóri dagdvalar Hrafnistu Hraunvangi

 

When life gives you lemons

Klukkan er 09:00 hérna á Kanarí. Ég sit á svölunum í morgunsólinni meðan aðrir fjölskyldumeðlimir sofa aðeins út eftir brölt frameftir í gærkvöldi, þegar ég fatta að það væri komin miðvikudagur og ég ætti að skila molum vikunnar. 

Mér er þakklæti efst í huga núna. Að geta verið hérna með 2 ára dóttir minni sem er „Covid barn“ já hún fæddist fimm mínutum áður en allt fór í lás og takmarkanir urðu þannig að það var nánast ekkert sem mátti gera. Ég veit að þetta á kannski ekki eftir að hafa mikil áhrif á hana, en mér fannst við fara á mis við svo mikið fyrsta árið hennar. Allt sem ég var búin að sjá fyrir mér og hlakka til að gera á meðan ég gekk með hana. Fara í ungbarnasund, mömmumorgna, heimsækja fólkið mitt í vinnunni og margt fleira. En við gerðum það besta úr aðstæðunum og og ferðuðumst t.d um landið fyrstu tvö sumrin hennar, þangað sem okkur datt i hug og úr varð að hún er búin að koma víðar innanlands tveggja ára gömul heldur en mamma hennar gerði fyrstu 20 árin sín og ekkert nema góðar minningar í bankann, og gleði þegar ég hugsa til baka. 

Gleðin á líka systur, Sorgina. Þessar tvær hittast alltaf hjá mér á þessum árstíma. Ég var stödd nákvæmlega hérna fyrir 6 árum síðan þegar litli bróðir minn kvaddi þetta líf. Blendnar tilfinningar já, þarna rétti lífið mér heldur betur súra sneið. Ég hélt mig myndi aldrei langa að koma hingað aftur miðað við líðan sem ég tókst á við þá. En hérna er ég samt núna og tek þessar tilfinningar og nota þær til að hugsa til hans, rifja upp góða tíma og minni sjálfa mig á að ég er sterkari eftir þessi ár sem liðin eru. Ég vill nefnilega meina að við sem vinnum í umönnun og höfum gert lengi séum sterkari einstaklingar til að takast á við áföll að þessu tagi. Þar sem við erum svo oft í okkar starfi, nálægt sorginni og dauðanum með okkar skjólstæðingum og aðstandendum. Fyrir alla þá reynslu er ég allavega sterkari einstaklingur og er þakklát fyrir það. Þó að tíminn lækni ekki sárin, þá birtir alltaf til aftur. 

Og birtuna elskum við öll. Hún er í loftinu, með hækkandi sól og sumri á næsta leyti. Okkur eru allir vegir færir með engum takmörkunum inn í sumarið. Ég held að allir taki undir hversu góð tilfinning það er. Framundan er Hjólað í vinnuna, vorfögnuðir hingað og þangað og almenn gleði sem fylgir þessum árstíma sem er alltaf jafn skemmtilegur og spennandi og þá sérstaklega eftir það sem vetur konungur bauð okkur upp á sl. mánuði. 

Takk mitt besta samstarfsfólk fyrir veturinn og góða samvinnu alltaf. Knúsið fólkið ykkar og njótið augnabliksins.

 

Ég óska öllum gleðilegra páska úr sólinni.

Alma Ýr Þorbergsdóttir, deildarstjóri dagdvalar Hrafnistu Hraunvangi.

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur