Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 20. maí 2022 - Gestahöfundur er Helga Björk Jónsdóttir, umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu

Það er fátt skemmtilegra en að taka á móti nýju sumri og sérstaklega eftir erfiðan vetur.

Þá kemur yfir okkur þessi gamalkunna frelsistilfinning að nú getum við vakað lengur, gert aðeins meira og verið með fólkinu okkar í birtunni sem er alsráðandi á okkar ágæta Íslandi á þessum tíma árs.

Því miður hafa síðustu tvö sumur litast af heimsóknartakmörkunum á Hrafnistuheimilunum sem er langt frá því að vera óskastaða neins.

Nú lítur allt út fyrir að við fáum að njóta sumars án heimsóknartakmarkanna og það er aldeilis tilefni til að þakka fyrir það.

Við þekkjum öll tilfinninguna sem fylgir því að eiga von á gestum á fallegum sumardegi vitandi að nú verður glaðst og hlegið.

Það að fá að vera með fólkinu sínu er mikilvægt og dýrmætt og þess vegna þurfum við eftir rúm tvö skrítin ár að leggja okkur sérstaklega fram við að bjóða aðstandendur velkomna í hús.

Allar lokanir inn og út af heimilunum voru gerðar til þess að bjarga lífum fólksins okkar en nú þurfum við öll að leggjast á eitt við að færa heimilin aftur til þeirrar menningar að aðstandendur séu raunverulegur og mikilvægur hluti af heimilislífi Hrafnsituheimilanna.

Það reyndist íbúum okkar sérlega erfitt að fá ekki að hitta fólkið sitt ótakmarkað og í samtölum mínum við þau finn ég að þetta hafði meiri áhrif en hægt var að ímynda sér.

Dagarnir voru lengur að líða, einmannaleikinn jókst og tilfinningin um að vera fastur inni á stofnun var því miður ríkjandi.

Nú er mál að setja það í forgang að opna faðminn og taka á móti gestum og muna að það er stór hluti af menningu hvers heimilis að bjóða fólk velkomið í heimsókn.

Í gamla daga var heimsókn í bæinn ein af örfáum leiðum til að hitta annað fólk en það sem bjó saman. Þá voru sagðar sögur og fengnar fréttir af öðrum. Best var ef fólk gaf sér góðan tíma til samtals af því að það var ennþá meira nærandi og skemmtilegt fyrir alla hlutaðeigandi.

Þó svo að við getum í dag fengið fréttir af fólkinu okkar í gegnum alskyns miðla held ég að við getum öll verið sammála um að  gamli góði „gestagangurinn“ sé það sem færir okkur mesta gleði og ánægju.

Að fá gesti getur verið eins og að fá veröldina inn til sín í smá stund. Húsið fyllist af nýrri orku og gestir skilja eftir sig minningar og tilfinningar sem hjálpa okkur að líða vel.

Við erum tengslaverur og þurfum að fá að vera það.

Höfum það sérstaklega í huga þetta sumar að fagna þeim sem koma og gefum okkur tíma til að kynnast aðstandendum íbúanna okkar, ungum sem öldnum.

Að lokum langar mig að hvetja okkur öll til þess að gæta þess að hjálpast að við það að leiðbeina nýja sumarstarfsfólkinu okkar í þessa átt.

Gleðilegt heimilislegt og opið sumar.

 

Helga Björk Jónsdóttir,

Umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu.

 

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur