Top header icons

Fyrir starfsfólk
Örugg skjalamótttaka Örugg skjalamótttaka Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 
 
 

Föstudagsmolar 24. júní 2022 - Gestahöfundur er Oddgeir Reynisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Hrafnistuheimilanna

 

Ágætu samstarfsmenn,

Ég er búinn að vera tölvuvert á Hrafnistu Ísafold síðustu daga og langar að hrósa starfsfólki á Ísafold fyrir góða liðsheild og umhyggju gagnvart íbúum og starfsmönnum á öðrum deildum.  Það er án efa full ástæða til að hrósa starfsfólki á öðrum heimilum en hér deili ég bara reynslu minni frá síðustu dögum.

Einn starfsmaður sagðist vilja hrósa ungum sumarstarfsmanni sem færði sig af einni deild, þegar það róaðist þar, og yfir á aðra deild sem hann vissi að var verr mönnuð vegna veikinda og bauðst til að aðstoða. Daginn eftir varð ég svo vitni að því að annar starfsmaður fór á milli eininga og bauð fram aðstoð sína óumbeðinn. Það er ómetanlegt þegar við hugsum um heildina og reynum að hjálpast að við að veita okkar íbúum afburðar góða þjónustu auk þess að þjónusta hvert annað. Það er einstaklega gaman að geta létt lífið, bæði fyrir íbúa og samstarfsfólk, með því að bjóðast til að aðstoða þegar þörf er á slíku. Þannig verður hver dagur skemmtilegri.

Í minni húsunum okkar skiptir miklu máli að starfsfólk sé vakandi fyrir því að hjálpast að milli eininga. Ég veit að sumir starfsmenn vilja helst vera á „sinni“ deild og  halda sig þar. Rökin með því er að þá þekki starfsfólkið fólkið á deildinni betur. Þar sem deildarnar eru litlar þá tel ég að starfsfólkið fái miklu meira út úr starfinu til lengri tíma með því að flæða á milli og þekkja þar með allt húsið vel með tímanum.  

Þetta hjálpar líka til við mönnun því þá er úr stærri hópi starfsmanna að velja þegar vantar á vaktir. Það heyrist oft að starfsfólk sé tilbúið til  að vinna aukavakt ef það vinnur á „sinni deild“. Þetta  skapast af því að þeir hafa ekki unnið nægilega oft á öðrum deildum innan heimilisins og fengið þá þjálfun sem þarf til þess og öðlast það öryggi að geta unnið á fleiri en einni starfseiningu. Starfsmenn sem hafa flakkað um húsin eru meira að hugsa um að allt gangi vel í húsinu en sá sem fer aldrei út af deildinni.  Ef við skoðum þetta í stærra samhengi þá er það  ekki sanngjarnt gagnvart öðrum að sama starfsfólkið sé alltaf að vinna á „sinni deild“ sem vill svo til að er létt á meðan aðrir eru að vinna á erfiðari deildum alla daga.

Þegar mönnun er misjöfn vegna forfalla t.d.  A mönnun á einni deild og B á annarri að ég tali nú ekki um ef það er B á öllum og C á einni, er mikilvægt að starfsfólk  hjálpist að við að láta daginn ganga upp og láta íbúana finna sem minnst fyrir því að það sé fámennt. Saman vinnum við svo miklu betra verk en hvert í sínu horni. Alveg eins og í hópíþróttum, þá snýst það um að liðið sé að spila saman en ekki um að hver og einn sé að reyna að sóla allan völlinn með misgóðum árangri.  Það er ekki efnilegt ef t.d. hægri kantmaður í fótbolta hugsar bara um hvað er að gerast á hægri kantinum og heldur sig allan tíma við hliðarlínuna og bíður eftir boltanum.

Af rekstrarsviði Hrafnistu er það að segja að það er búið að vera mikið að gera á síðustu árum. Eins og kom fram í síðasta pistli var ákveðið að ráða starfsmann á sviðið sem sæi um tæknimálin, það var farsæl ákvörðun.  Í júní hefur verið unnið að því  að færa kerfisreksturinn og tækniþjónustuna frá Sensa yfir til Endor sem er dótturfélag Vodafone.  Sú vinna hefur gengið vel og er það von okkar að það samstarf muni lyfta okkur á allt annan stall hvað varðar tæknilegan rekstur sem með degi hverjum verður sífellt flóknari. Við leggjum áherslu á að tæknin styðji vel við reksturinn og auki sjálfvirkni og gæði þjónustunnar.  Verið er að sjálfvirknivæða ferla tengda starfmannamálum t.d. við ráðningar og tengingar starfsmanna við innri kerfi sem er spennandi. Þetta eykur skilvirkni, bætir gæði ferla, sparar vinnustundir starfmanna og bætir upplifun þeirra.  Einnig höfum við verið að innleiða nýtt tímaskráningarkerfi í nokkrum húsum þar sem við erum að færa okkur úr Vinnustund yfir í MTP.  Allt hefur þetta kallað á mikla vinnu og yfirlegu okkar fólks en það sem mestu máli skiptir er að breiður hópur starfsmanna kemur að þessu og allir stefna í sömu átt. 

Undirbúningur stendur yfir við að taka upp þráðlaust net á tveimur heimilum. Fyrir eru  þráðlaus Hrafnistunet á þremur heimilum en árið 2018 var ekkert samhæft þráðlaust net bara stakir punktar.

Innkaupahlutinn hefur verið að endursemja og vinna að hagræðingu í innkaupum og vinna einnig í þróun á innkaupakerfinu okkar með ágætum árangri.  Innkaupahópur nokkurra hjúkrunarheimila kemur reglulega saman en hann hefur það markmið að fara í sameiginleg verðtilboð á vörum sem heimilin þurfa á að halda.

Eitt af því sem við erum afar stolt af eru eldhúsin okkar. Annars vegar eldhúsið á Nesvöllum, sem er að verða barn síns tíma en við vonumst til að sjá breytingar á því á næstu árum og svo nýja framleiðslueldhúsið í Laugarási.  Mikil gæðavinna hefur átt sér stað og er ánægja með matinn mikil, bæði hjá íbúum og starfsfólki.  

 

Með kærri kveðju og von um góða helgi og ánægjulegt sumar.

Oddgeir Reynisson

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Hrafnistuheimilanna.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur