Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 3. mars 2023 - Gestahöfundur er Hleiðar Gíslason, upplýsingatæknistjóri Hrafnistu

Við erum öll ofurhetjur innan sem utan

Nýtum tæknina til að veita enn betri þjónustu

Upplýsingatækni og stafrænar lausnir munu gegna lykilhlutverki í þróun heilbrigðiskerfisins á komandi árum. Smægð íslenska heilbrigðiskerfisins, mikið tæknilæsi okkar og sú uppbygging innviða í þágu upplýsingatækni sem hefur átt sér stað fela í sér óteljandi tækifæri til að bæta gæði og skilvirkni.

Markmiðið með nýjum tæknilausnum er að styðja betur við störf ásamt því að auka enn betri þjónustu við íbúa okkar. Það má segja að stafræn vegferð sé ein stærsta áskorun fyrirtækja og stofnana í dag og þegar vel er að verki staðið skapast ótal tækifæri til að umbreyta starfseminni til hins betra ásamt því að skara fram úr.

Það má segja að við séum að taka þátt í þeirri áskorun, að nýta nýjar tæknilausnir. Undanfarna mánuði höfum við lagt mikla áherslu á að skapa umhverfi innan Hrafnistu sem stuðlar að því að nýta tæknina til að veita öruggari og enn betri þjónustu. Auðvitað vilja allir reyna að slökkva á eldri kerfum og ferlum helst í gær en við vitum að sólin rís alltaf í austri. Hluti af því er að skoða hvernig núverandi tækni er nýtt og hvort nýjar tæknilausnir leysi út það sem fyrir er.

Ég hef í mörg ár notað hugtakið fólk, ferlar og tækni til að skilgreina ný verkefni. Það eitt og sér hefur hjálpað mikið til við að skoða hvort það sé grundvöllur fyrir því að hefja innleiðingu á nýjum tæknilausnum. Tækni eitt og sér nær ekki árangri nema hafa frábæra starfsmenn sem hafa þjónustugleði að leiðarljósi því þá er allt hægt, þar finnst mér við á Hrafnistu geta tikkað í boxið.

Hvernig getum við sem starfsmenn Hrafnistu tekið þátt?
Ef við horfum á það út frá gildum Hrafnistu sem eru Virðing, Frumkvæði, Heiðarleiki og Hugrekki þá búum við öll yfir hugmyndum yfir nýjum tæknilausnum en þorum kannski ekki að segja frá þeim. Ef við stígum út fyrir boxið og segjum frá okkar hugmyndum þá erum við strax búin að haka við tvö af okkar gildum sem eru fumkvæði og hugrekki. Við erum öll ofurhetjur innan sem utan, verum því ekki feimin að taka þátt í þessari þróun, láttu ljós þitt skína sem gæti nýst Hrafnistu til að vera leiðandi í okkar vegferð.

Mikið af spennandi verkefnum eru í gangi hjá okkur og langar mig fyrst að nefna sem dæmi innleiðingu á þráðlausu neti. Verkefnið Smásaga sem við erum í vöruþróun með Origo gengur vel og mun það auka öryggi og bæta þjónustu við okkar íbúa. Um er að ræða virkilega spennandi verkefni og er það liður í því að geta haldið áfram að þróa og taka inn nýjar lausnir í notkun hjá okkur. 

Öll þekkjum við eyðublöð / umsóknir sem þarf að prenta út, skrifa, skanna inn og að lokum að senda með tölvupósti. Þetta er kjörið ferli þar sem hægt var að nýta nýjar lausnir. Umsóknarferlið í Rannsóknarsjóð Hrafnistu var þannig uppsett en ákveðið var að skoða hvort hægt væri að setja ferlið og umsóknina yfir í rafrænt form. Í dag er umsóknareyðublaðið orðið rafrænt. Umsækjendur geta nálgast umsóknina með rafrænumskilríkjum inn á heimasíðunni okkar og sent inn með rafrænum hætti. 

Að lokum má segja að betri tækni eykur öryggi og þjónustuupplifun okkar starfsmanna, íbúa og aðstandenda sem og annarra gesta.

Góða helgi!

Hleiðar Gíslason, upplýsingatæknistjóri á Rekstrarsviði

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur