Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 31. mars 2023 - Gestahöfundur er Sigurður Ágúst Sigurðsson, fráfarandi forstjóri happdrættis DAS

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2022_intro-molar-ss-31032023.jpeg

Að leggja skóna á hilluna!

Fyrirsögnin vísar í algengar fyrirsagnir í fjölmiðlum er íþróttamenn hætta íþróttaiðkun. Sjálfur stundaði ég hópíþróttir fram yfir þrítugt og e.t.v. við hæfi að nota þetta er ég lýk störfum fyrir Happdrætti DAS í lok maí eftir 33 farsæl ár. Reyndar eru þetta 35 ár ef ég tek starf mitt sem aðalbókari Hrafnistu í 2 ár. Langur tími á stuttri ævi.

Ég segi stundum að ég hafi unnið í happdrætti á hverjum degi. Ég lofaði mér því að þegar sá dagur rynni upp að mig langaði ekki lengur í vinnuna, myndi ég segja upp. Sá dagur kom aldrei og hef ég notið hverrar stundar í vinnunni.

Ég hef unnið með mörgu góðu fólki og kynnst enn fleirum í gegnum starf mitt og er ég afar þakklátur fyrir það. Happdrætti DAS hefur notið þeirrar gæfu að hafa ávallt gott og samviskusamt starfsfólk sem hefur borið hag happdrættisins fyrir brjósti sér. Á stundum átt andvökunætur. Þetta sama fólk hefur unnið í yfir 20 – 30 ár samfleytt í happdrættinu og lokið störfum er það komst á eftirlaun.

Þessi mannauður á mikinn þátt í því hve vel hefur gengið eða frá því að ég (og við) komum til starfa um og upp úr 1990. Þetta hefur verið mikil þolinmæðisvinna (langhlaup) og nú er svo komið að sala miða er á pari við söluna eins og hún var fyrir 40 árum síðan. Sannast sagna var framtíð Happdrætti DAS ekki vænleg eftir að Lottó var stofnað. Allt of mörg happdrætti að berjast á þeim örmarkaði sem Ísland var. Síðan þá hefur Íslendingum fjölgað umtalsvert.

Á mínum ferli var bryddað upp á mörgu sem ýmist floppaði eða gekk misvel. Sem dæmi var Bingó Lottó sett á laggirnar og sýnt í beinni útsendingu í tvö ár á Stöð 2, DAS-2000 þættir á RÚV sem var útsending á útdráttum úr Happdrætti DAS vikulega. Símahappdrætti DAS 907-2000 var keyrt í sama þætti og gat fólk sem átti happdrættismiða hringt inn í þáttinn og fengið vinninga á lukkuhjóli sem snúið var. Þar voru bifreiðar í vinninga auk utanlandsferða o.fl. Á þessum tíma ríkti mikil samkeppni á happdrættismarkaðnum og því ljóst að ekki var pláss fyrir mörg sjónvarpshappdrætti á Íslandi á sama tíma. Öll hættu eftir skamman tíma.

Þessi reynsla kenndi okkur að farsælast væri að snúa okkur að sjálfri mjólkurkúnni, Happdrætti DAS. Útdráttum var fjölgað og dregið vikulega í stað mánaðarlega. Sala miða í Færeyjum hófst árið 1995 og hefur gengið vel. Fyrst var greitt með gíróseðlum en nú aðallega með kreditkortum. 10 ára barátta fyrir því að fá heimild til að greiða vinninga út í peningum náðist loksins árið 2005. Lög um Happdrætti DAS eru frá 1954 og eru enn óbreytt. Þar segir að vinningar skulu vera; bifreiðar, búvélar (traktorar), búpeningur (góðhestar m/reiðtygi), farseðlar til ferðalaga og húsbúnaður. Reglugerð sem byggir á lögunum hefur hins vegar verið breytt svo Happdrætti DAS gæti þróast og dafnað.

Framundan eru „áramótin“ í Happdrætti DAS. Fyrsti útdráttur fer fram 11. maí n.k. Dregið verður tvisvar í þeirri viku. Seinni útdrátturinn fer fram 14. maí.

Slagorðið í ár verður: „Allir fimmtudagar eru DAS dagar“.

Fyrir hönd Happdrættis D.A.S. og starfsfólks óskum við starfsfólki Hrafnistuheimilanna í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjanesbæ og Garðabæ gleðilegs sumars.

Sigurður Ágúst Sigurðsson,
forstjóri  Happdrættis D.A.S.

 

Til hægri á meðfylgjandi mynd er Sigurður Ágúst Sigurðsson fráfarandi forstjóri ásamt Valgeiri Elíassyni sem tekið hefur við sem framkvæmdastjóri happdrættisins.

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur