Þessa dagana er Sigurður Ágúst, forstjóri Happdrættis Das, að ljúka störfum eftir 33 ára farsælt starf. Þegar Sigurður, eða Siggi eins og við köllum hann dagsdaglega, hóf störf árið 1990 voru aðrir tímar hjá Happdrætti Das en eru núna þegar ég tek við keflinu af honum. Samkeppni hafði þá nýlega aukist mikið og hagnaður af starfseminni var orðinn lítill sem þýddi að minna kom til uppbyggingar á Hrafnistu.
Fyrstu árin í starfi voru ekki einföld hjá Sigga en með krafti sínum og dugnaði hóf hann sókn á happdrættismarkaðnum sem sér ekki enn fyrir endann á.
Ekki skorti Sigga hugmyndaflugið þegar kom að nýjungum. Einhverjir muna eflaust eftir Bingó Bjössa sem gerði góða hluti í sjónvarpinu á tíunda áratugnum. Eftir daga Bingó Bjössa kom Das 2000 sjónvarpsþátturinn. Þá breytti Siggi því að draga mánaðarlega út vinninga yfir í að draga vikulega sem stórjók vinningsmöguleikana. Útrás Das til Færeyja má ekki gleyma en enn þann dag í dag er Das eina íslenska happdrættið þar. Siggi vílaði ekki fyrir sér að flytja inn bílategundir til að hafa í vinning sem ekki voru aðgengilegir almenningi á þeim tíma. Síðan skellti hann milljónum í skottið ef viðkomandi átti tvöfaldan vinning. Þá tók hann þátt í því að breyta því að í stað vöruvinninga var farið að greiða út peningavinninga. Það verður því seint sagt að Siggi hafi ekki haft hugmyndaflug þegar kom að happdrættisrekstri.
Án Happdrættis Das stæði Hrafnista líka ekki í þeim sporum sem við stöndum í dag. Uppbygging á Laugarási og Hraunvangi hefði orðið með öðrum hætti þar sem fjármunir frá Das skiptu höfuðmáli á sínum tíma þegar uppbygging stóð yfir. Á seinustu árum hefur hagnaður Happdrættis Das nýst vel í endurbætur á núverandi húsnæði. Svo sem að breyta tvíbýlum yfir í einbýli og byggja nýtt eldhús í Laugarási svo dæmi séu tekin.
Með þessum orðum óska ég Sigga velfarnaðar í nýju hlutverki sem heldri borgari og veit að hann mun ekki sitja aðgerðalaus. Samt hvet ég hann til að prófa að sitja aðgerðalaus, það er ágætt af og til, en getur verið erfitt ef viðkomandi er ekki vanur aðgerðaleysi. Í því sannast hið fornkveðna „æfingin skapar meistarann“.
Valgeir Elíasson, framkvæmdastjóri Happdrættis Das.