Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 16. júní 2022 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

Kæru samstarfsfélagar,

Það er virkilega gaman að sjá allt þetta nýja fólk sem kemur eins og kærkomin alda inn í húsin okkar til að leysa okkur öll af í sumarfrí. Kominn tími til að við fáum að fara í sumarfrí og hlaða batteríin. Það verða spennandi verkefni í haust sem við tökumst á við full af orku.

Eitt af verkefnum haustsins er að innleiða sameiginlega stefnu okkar á Hrafnistu til framtíðar. Hvar sjáum við okkur sjálf með augum framtíðarinnar. Það er að mínu mati hollt að við reynum að setja okkur í spor okkar sjálfra í framtíðinni og hugsa hvort við séum þar að horfa stolt til baka á þann árangur og á þá þjónustu sem við vorum að veita í dag. Hvað var það sem við gerðum vel og erum stolt af? Hvað var það sem við gerðum ekki vel og hefðum viljað gera betur?

Við á Hrafnistu getum lært mikið af góðri hótelþjónustu

Við eigum margt sameiginlegt með hótelþjónustu þar sem okkar hlutverk er að þjóna þeim sem þurfa á þjónustu að halda. Við á Hrafnistu eigum að vera eins og flott „hótel.“ Hugsið með sjálfum ykkur hvað ykkur þykir mikilvægt þegar þið mætið á hótel sem þið hafið kannski pantað í sumar? Hvernig er tekið á móti ykkur? Mætir ykkur glaðlegt viðmót frá einhverjum sem er virkilega ánægður með að þú sért kominn? Sýnir viðkomandi þér raunverulegan áhuga eða mætir ykkur viðmót þar sem þið finnið strax að þið eruð að trufla viðkomandi? Hvort viðhorfið mynduð þið óska eftir að mæta?

Ég trúi á „karma,“ þ.e. ég trúi því að það sem ég sendi frá mér á hverjum degi fæ ég til baka. Ég trúi því ekki bara, heldur hreinlega upplifi ég það daglega. Það skiptir mig máli að ég mæti öllum, sama hver það er, af virðingu og jákvæðni vegna þess að það er sú stemning sem ég vil skapa í kringum mig. Ég vil að sá sem ég ræði við upplifi það að ég hafi raunverulega áhuga á að hitta hann og veita honum þá þjónustu sem mér ber að veita sem stjórnandi og starfsmaður Hrafnistu, hvort sem hann er íbúi, starfsmaður eða aðstandandi.

Mig langar að biðja ykkur öll, hver sem þið eru, að gefa því gaum hvernig einstaklingar þið sjálf eruð? Hvaða „karma“ eruð þið að gefa frá ykkur?

Menning Hrafnistu

Hluti af því að móta stefnu fyrirtækis er að móta sameiginlega menningu. Það er ákveðin menning á Hrafnistuheimilunum í dag sem einkennist almennt af léttleika, virðingu og kærleika fyrir náunganum. Það er ómetanlegt að vinna á stað sem geymir slíka menningu vegna þess að það er ekki sjálfsagt. En ég veit líka að við getum alltaf gert betur. Það er mikilvægt að við fáum að vita frá okkar stjórnendum til hvers er ætlast af okkur í vinnunni þegar kemur að hegðun, framkomu og ákvarðanatöku. Þess vegna móta fyrirtæki „Gildi“ sem starfsfólk og stjórnendur nýta sér við sína vinnu til að leiðbeina okkur við ákvarðanatöku og á að vera órjúfanlegur hluti af okkur. Þannig náum við að samræma okkar þjónustu. Gildi fyrirtækis eru einskonar grunngildi sem við viljum ekki víkja frá. Okkar grunngildum reynum við að fara eftir, bæði meðvitað og ómeðvitað.

Gildi Hrafnistu

Stjórn Sjómannadagsráðs og fulltrúar Sjómannadagsráðs, sem er eigandi Hrafnistu, unnu á sínum tíma gildi Sjómannadagsráðs sem eru Heiðarleiki – Frumkvæði – Virðing. Hvað það þýðir kemur fram  HÉR og ég bið ykkur að lesa það, því það er sú menning og hegðun sem ætlast er til af hverjum og einum starfsmanni Hrafnistu. Það gildir bæði um mig og þig. Starfsfólk Hrafnistu ákvað að fá eitt gildi lánað og það er gildið Hugrekki. Á næstu dögum munum við hengja upp á hverri deild/einingu gildi Hrafnistu og ég bið ykkur að lesa þau, melta þau, æfa ykkur við að vinna eftir þeim og síðan tökum við saman boltann í haust og innleiðum stefnu og framtíðarsýn Hrafnistu þar sem við göngum saman í eina átt.

Eigið dásamlega helgi og sumarfrí hvar sem þið eruð stödd.

Bestu kveðjur,

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

 

Lesa meira...

Síða 2 af 309

Til baka takki