Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 13. maí 2022 - Gestahöfundur er Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi

Lesa meira...

Maí er runninn upp, einn af mínum uppáhalds mánuðum, gróðurinn að taka við sér, bjartar nætur, fuglar undirbúa hreiðurgerð, sauðburður og stangveiði. Allir spenntir að fara í sumarfrí eftir langan og strangan vetur og elsku frábæra sumarstarfsfólkið okkar mætir eins og ferskur sumarblær inn á vinnustaðinn.

Það er ekki hægt að neita því að veturinn hjá okkur á Hraunvangi var harla óvenjulegur, framan af vorum við ýmist að draga úr regluverkinu sem fylgdi Covid eða bæta í. Í tvö ár gátum við komið í veg fyrir að íbúar okkar smituðust af Covid, en svo kom skellurinn – fjöldi íbúa og starfsmanna fengu veiruna skæðu. Það sem var magnað á þessum tíma var að sjá samstöðuna og drifkraftinn í starfsmannahópnum okkar, allir lögðu sig fram við að láta hlutina ganga upp og fyrir það er ég óendanlega þakklát.

Frá því í haust hefur verið mikið um framkvæmdir á Hraunvangi, búið að fara í mikla upplyftingu á rýmum í A álmu, skipt var um fataskápa, innréttingar, hreinlætistæki, málað o.fl. Eins hefur verið hresst upp útlit miðrýma, málað og húsgögn endurnýjuð. Þessar framkvæmdir reyna á alla aðila, ekki síst íbúana okkar, það ber að þakka öllum hlutaðeigandi aðilum fyrir þá þolinmæði og skilning sem þau hafa sýnt á meðan framkvæmdum stendur.

Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur en eins og gefur að skilja hafa mörg verkefni verið sett á bið síðustu tvö ár en nú getum við loksins haldið áfram og það sem er ánægjulegast er að mega aftur hittast og eiga skemmtilegar stundir. Síðastliðinn föstudag hélt starfsmannafélag Hrafnistu í Hafnarfirði vorfögnuð þar sem boðið var upp á flottan mat í glæsilega skreyttum sal, skemmtiatriði og hljómsveit lék undir dansi – þvílíkt fjör. Gleði skein úr andliti allra og kvöldið einstaklega vel heppnað hjá þessum samhenta hópi starfsmanna.  

En sjálf ætla ég nú að taka mér viku frí og skella mér í sauðburð, það eru forréttindi að geta farið á sitt æskuheimili í sveitinni og geta tekið þátt í sauðburði, fyrir þá sem ekki hafa prufað þá mæli ég með því, það er ekki hægt að finna betri leið til að vera í núvitund og slaka á.

Góða helgi og njótið sumarsins öll sem eitt.

 

Árdís Hulda Eiríksdóttir

forstöðumaður, Hrafnistu Hraunvangi.

 

 

Lesa meira...

Síða 12 af 314

Til baka takki