Föstudagsmolar 21. apríl 2023 - Gestahöfundur er Sara Pálmadóttir, forstöðumaður Hrafnistu Ísafold
Það er mikilvægt að halda upp á tímamót í lífinu og um daginn varð Ísafold 10 ára. Við héldum upp á afmælið með pomp og prakt svo tekið var eftir, buðum upp á freyðivín, makkarónur og fleira góðgæti. Sjálf á ég tíu ára gamla dóttur og líður eins og hún hafi fæðst í gær. Ég ímynda mér að tilfinningin sé eins hjá þeim sem hafa fylgst með Ísafold rísa og dafna. Tíminn er svo ótrúlega fljótur að líða og sérstaklega þegar það er gaman.
Á Ísafold er umhverfið allt hið glæsilegasta, húsið fallegt og það er svo gaman að ég heyri oft þegar fólk kemur í heimsókn að það skynjar svo góðan anda í húsinu. Og það er hann svo sannarlega.
Það mikilvægasta í húsinu er hinsvegar mannauðurinn. Í starfi mínu á Ísafold er ég svo lánsöm að fá að hitta marga sem tengjast húsinu, íbúa, gesti, starfsmenn Hrafnistu og Garðabæjar, verktaka, vini og velvildarmenn.
Það er gaman að líta til baka á þau fimm ár sem ég hef verið svo heppin að starfa á Ísafold. Mikil reynsla og saga hefur skapast á þessum árum og þegar ég hugsa til baka þá kemur fólkið sterkt upp í huga mér. Allir sem ég hef kynnst og hafa verið tilbúnir til að deila með mér sinni lífssögu og reynslu. Við erum svo heppin að fá að starfa og kynnast öllu þessu frábæra fólki og mig langar til að hvetja ykkur til að vera forvitin og vera óhrædd við að kynnast íbúunum og hvort öðru. Það er dýrmæt vinátta sem getur myndast og mig langar að enda á þessu ljóði sem lýsir því svo vel:
Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna
vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina
en viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
Höfundur: Hjálmar Freysteinsson
Gleðilegt sumar og góða helgi!
Sara Pálmadóttir, forstöðumaður Hrafnistu Ísafold.