Föstudagsmolar 2. desember 2022 - Gestahöfundur er Soffía Egilsdóttir, umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu
Kveðjumolar
Kæra samstarfsfólk.
Nú er komið að tímamótum í mínu lífi. Við förum öll í gegnum margskonar tímamót yfir ævina; Við hefjum skólagöngu og ljúkum, flytjum að heiman og stofnum nýja fjölskyldu eða byrjum í nýrri vinnu. Núna á næstu vikum stend ég frammi fyrir nýjum tímamótum þegar ég læt af störfum og fer á eftirlaun eftir tæp 24 ár hjá Hrafnistu. Tilfinningin er að þó um mörg ár sé að ræða hafi þessi tími liðið á ógnarhraða enda alltaf mikið um að vera á Hrafnistuheimilunum.
Þegar ég lít til baka hefur ótrúlega margt gerst á þessum árum og oft hefur starfsfólk þurft að sýna þrautseigju og hugmyndaauðgi til þess að láta daglegt líf raskast sem minnst hjá íbúum þegar m.a. framkvæmdir af ýmsu tagi hafa verið í gangi í gegnum tíðina. Frá því að ég byrjaði hefur meðal annars húsnæði Hrafnistu Laugarás í Reykjavík breyst mikið og fyrir nokkrum árum fóru fram miklar framkvæmdir þegar verið var að breyta tveimur litlum herbergjum í eitt með sér baðherbergi. Útbúin voru göng úr plasti sem íbúar og starfsfólk fór um þegar rykið og brotið var sem mest. Alla mína tíð hér hefur verið stöðug þróun og reynt að koma sem best til móts við nýjar kröfur samfélagsins og íbúa svo oft hefur mikið gengið á.
Eins hefur samsetning íbúanna breyst á þessum árum. Hér áður fyrr var fólk oft hressara þegar það kom á Hrafnistu. Ég lærði sem dæmi gömlu dansana af konu sem hingað flutti og varð góð vinkona mín. Þá var oft mikið dansað á böllum sem haldin voru á Hrafnistu. Eins flutti hressara fólk á vist eða dvalarheimili sem var nokkurs konar millibil á milli búsetu heima og hjúkrunarheimilis. Í dag kemur fólk seinna til okkar og er oft búið að bíða lengi eftir plássi.
Ég hef verið svo heppin að fá að vinna á öllum heimilum Hrafnistu sem hefur gert vinnuna mjög fjölbreytta. Hvert heimili hefur sinn heimilisbrag með ólíkum stjórnendum, starfsfólki og íbúum. Einnig hef ég fengið að taka þátt í hönnun á nýju heimili frá upphafi með nýrri hugmyndafræði sem var mjög gefandi og spennandi.
Fyrir fjórum árum var ákveðið að setja á fót nýtt starf umboðsmanns íbúa og aðstandenda Hrafnistu og var ég svo lánsöm að fá að móta það starf með Maríu Fjólu forstjóra Hrafnistu. Ég var fyrsta árið ein í starfinu en fékk svo tvær frábærar samstarfskonur til liðs við mig rétt um það leyti sem Covid skall á. Það var ómetanlegt að vera ekki ein í starfi á þeim skrítnu tímum sem Covid var. Við gátum sem teymi unnið sem einn maður að því markmiði að mæta þörfum íbúanna okkar og aðstandendum þeirra í flóknum aðstæðum þar sem enginn mátti koma í heimsókn.
Í starfi umboðsmanns hef ég fundað með nánustu aðstandendum heimilismanna en fjölskyldurnar eru orðnar nokkur hundruð sem ég hef kynnst. Það hefur verið mjög gefandi og ekki síður lærdómsríkt að vinna með aðstandendum íbúa Hrafnistu.
Það er eitt sem ég upplifi að allar fjölskyldur eiga sameiginlegt og það er að allir vilja gera það sem þau geta til þess að ástvinur þeirra búi við eins mikil lífsgæði og mögulegt er eftir flutning inn á hjúkrunarheimili.
Á þessum tímamótum í mínu lífi vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem ég hef unnið með fyrir samstarfið. Ég hef lært mikið af starfi mínu með ykkur öllum.
Ég veit að ég kem til með að sakna ykkar en hugga mig við það að ég get alltaf komið í heimsókn og fengið fréttir af því nýjasta sem er í gangi hjá Hrafnistu því eitt er víst að það verður alltaf eitthvað nýtt og spennandi.
Soffía Egilsdóttir,félagsráðgjafi og umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu.
Á meðfylgjandi mynd eru umboðsmenn íbúa og aðstandenda Hrafnistuheimilanna. Frá vinstri eru: Soffía, Karen Harpa og Helga Björk.