Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Styðja við áframhaldandi sjálfstæða búsetu

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2021_styja-vi-framhaldandi_mynd-me-texta1.jpeg

 

Í Fréttablaðinu, föstudaginn 3. september sl. var umfjöllun um dagendurhæfingarúrræði á Hrafnistu. Rætt var við þær Finnbjörgu Skaftadóttur deildarstjóra dagendurhæfingar og Gígju Þórðardóttur deildarstjóra sjúkraþjálfunar á Hrafnistu Laugarási. Greinina má lesa HÉR

Dagendurhæfingarúrræði á Hrafnistu á sér ekki hliðstæðu hér á landi og er þverfagleg teymisvinna fjölda fagaðila með það markmið að endurhæfa og styðja við eldri aldurshópa.

Dagendurhæfing á Hrafnistu Laugarási er endurhæfingardeild fyrir eldri aldurshópa þar sem áhersla er lögð á líkamlega þjálfun, andlega líðan og félagslega virkni. Sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og íþróttafræðingar sjá um markvissa endurhæfingarþjálfun sem er sérsniðin í samræmi við þarfir hvers og eins segja þær Gígja Þórðardóttir, deildarstjóri sjúkraþjálfunar og Finnbjörg Skaftadóttir, deildarstjóri dagendurhæfingar Hrafnistu. „Markmið dagendurhæfingar er meðal annars að einstaklingurinn auki og/eða viðhaldi færni sinni á athöfnum daglegs lífs sem styðji við áframhaldandi stjálfstæðri búsetu. Endurhæfingin er tímabundið úrræði, oftast 8-10 vikur í senn og einstaklingar geta verið 3-5 daga vikunnar,“ segir Gígja.

Fjölbreytt félagsstarf

Þær segja starfsmenn Hrafnistu vera einstaklega heppna að vera með reynda bílstjóra sem sæki fólk heim að morgni og hjálpi við að halda utan um þennan fjölbreytta hóp. „Þátttakendum býðst einnig að taka þátt í fjölbreyttu félagsstarfi yfir daginn og má þar nefna söng, bingó, kvikmyndasýningar, spil, upplestur, slökun og samveru. Ekki má gleyma næringunni sem er ein af undirstöðum góðrar heilsu en maturinn á Hrafnistu í Laugarási er bæði bragðgóður og næringarríkur auk þess sem matsalurinn er notalegur,“ bætir Finnbjörg við.

Einstakt úrræði

Dagendurhæfing er að þeirra sögn opin fyrir alla eldri borgara sem þurfa og vilja bæta heilsu sína og vinna markvisst að því að efla sig andlega og líkamlega. „Umsókn um dagendurhæfingu þarf að fylgja læknabréf og/eða hjúkrunarbréf ásamt beiðni um iðju- og/eða sjúkraþjálfun.“

Þær segja dagendurhæfingarúrræði á Hrafnistu ekki eiga sér hliðstæðu hér á landi. „Það eru til fjölmörg úrræði um land allt þar sem áherslan er fyrst og fremst á félagslegt samneyti og virkni en hjá okkur er að auki þverfagleg teymisvinna og einstaklingsmiðuð nálgun á líkama og sál.“ Þannig sé gert heilsufarsmat og mælingar á stöðu fólk í upphafi og lok dvalar og sett upp æfingaáætlun út frá þeim. „Hver og einn fær sína sérsniðnu dagskrá og við leggjum mikla áherslu á að fylgja fólki eftir, styðja og hvetja, sendum skýrslu til umsóknaraðila um árangur dvalarinnar og finnum úrræði í þeirra nærumhverfi sem þau geta nýtt sér að dvöl lokinni hjá okkur.“

Andleg líðan batnar

Þéttur hópur starfsmanna er vakinn og sofinn yfir velferð skjólstæðinga Hrafnistu að þeirra sögn og má þar helst nefna starfsfólk dagendurhæfingar, skjúkraþjálfara, íþróttafræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa að ógleymdu framlagi og alúð annars starfsfólks Hrafnistu Laugarási. „Teymið fer reglulega yfir stöðu mála hvers og eins á meðan á dvölinni stendur. Með því móti er hægt að grípa inn í ef einhverjar breytingar verða eða ef okkur finnst ekki hlutirnir ganga eftir óskum.“

Þær segja fólk vera afar ánægt með dvöl sína og margir óska eftir að koma þangað reglulega til sjálfseflingar. „Helstu breytingarnar sem við sjáum eru meiri virkni og framfarir í líkamlegri færni svo sem styrk, þoli og jafnvægi, verkir minnka oft og andleg líðan batnar til muna enda er allra meina bót að umgangast annað fólk og finna fyrir stuðningi starfsfólks í átt að auknum lífsgæðum.“

 

Umsagnir notenda dagendurhæfingarinnar

Anna Tryggvadóttir McDonald

„Fjölbreytt endurhæfing á Hrafnistu varð til þess að eftir liðskiptaaðgerð get ég nú stigið upp í bílinn minn og er ekki bundin heima eins og áður. Líkamlega þjálfunin er margvísleg og hefur styrkt mig á allan hátt. Á Hrafnistu er félagslega hliðin einnig áríðandi. Þetta er allt að þakka sérstöku starfsfólki sem leggur sig fram með dugnaði og þolinmæði við að aðstoða eins og mögulegt er. Þjálfarar eru frábærir á allan hátt og ég þakka kærlega fyrir þeirra góðu hjálp.“

Jón Otti Sigurðsson

„Ég er afskaplega ánægður með dvölina hér og tel Hrafnistu vera brautryðjanda í öldrunarmálum því þetta úrræði leggur áherslu á ræktun líkama og sálar og lagt er upp með að efla fólk til sjálfstæðrar búsetu sem lengst. Það er mikil og þörf umræða í þjóðfélaginu núna í aðdraganda kosninga um fjölbreytt úrræði fyrir minn aldurshóp og ég datt í lukkupottinn að komast hér að því þetta er úrræði sem virkar vel. Ég stefni að því að hlúa að heilsunni áfram og búa sem lengst heima og þessi dagendurhæfing er kærkominn bakhjarl í viðleitni minni til þess. Öll þjálfun er framúrskarandi og eftirfylgnin er góð, maturinn er góður og starfsfólkið einstakt.“

 

Mynd

Finnbjörg Skaftadóttir (fyrir miðju) er deildarstjóri dagendurhæfingar og Gígja Þórðardóttir (lengst til hægri) er deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu Laugarási. Með þeim á myndinni eru Jón Otti Sigurðsson og Anna Tryggvadóttir McDonald.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur