Föstudagsmolar 4. september 2015 - Pétur Magnússon forstjóri
Að trúa á það jákvæða!
Mest umtala atriðið á kaffistofum landsins í dag er án efa knattspyrnulandsleikur Hollendinga og Íslendinga sem fram fór í gærkvöldi. Þar báru okkar menn sigurorð af bronsliði síðustu heimsmeistarakeppni á þeirra eigin heimavelli.
Árangur liðsins okkar er ekki lengur nein tilviljun eða heppni. Þarna eru einfaldlega á ferðinni menn (piltar) sem með ótrúlegri þolinmæði, samvinnu, jákvæðni og óbilandi trú á sjálfum sér, eru búnir að koma sér í fremstu röð í vinsælustu íþrótt í heimi.
Stjórnun og starfsemi fyrirtækja og stofnanna má oft líkja við íþróttalið og er í raun þar mjög margt sameiginlegt. Þar sem menn vinna vel saman og hafa trú og jákvæðni að leiðarljósi við að takast á við verkefnin sem þarf að leysa, er hægt að framkvæma ótrúlegustu hluti og ná undraverðum árangri.
Það verður gaman að fylgjast með knattspyrnulandsliðinu okkar á næstunni. Auk þess að vera dugleg við að gleðjast með fótboltaliðinu okkar, getum við hér á Hrafnistu líka lært margt af þeim.
Fjölgun aldraðra
Fjölgun aldraðra í íslensku samfélagi á næstu árum hefur verið töluvert til umfjöllunar undanfarin misseri, sérstaklega í hópi okkar sem störfum að velferðar- og heilbrigðismálum. Til fróðleiks eru hér nokkrar tölur sem unnar eru úr mannfjöldaspá hagstofunnar. Íslendingar, 67 ára og eldri, eru í dag rúmlega 36þúsund eða 11,2% þjóðarinnar. Strax árið 2020 verður þessi aldurshópur kominn í 45þúsund manns eða 13%. Fjölgun aldraðra stigmagnast svo til ársins 2050 en þá verða aldraðir yfir 21% þjóðarinnar (um 88þúsund).
Þó margir kalli fjölgunina stórt vandamál vil ég ferkar horfa á þetta sem skemmtilegt viðfangsefni sem verður verðugt og gaman að fá að taka þátt í að glíma við.
Sumarhúsin í Hraunborgum
Mig langar að nota þetta tækifæri og minna ykkur á sumarhúsin fyrir starfsfólk Hrafnistuheimilanna í Hraunborgum í Grímsnesi. Tvö orlofshús í Hraunborgum verða leigð til starfsmanna Hrafnistu í vetur og er helgarleigan 10.000.- kr.
Orlofshúsin okkar þar eru reyndar aðeins að byrja vera gömul en hefur verið haldið ágætlega við. Þar er að finna öll helstu þægindi eins og sjónvarp, gasgrill og heitan pott.
Fyrir þá sem ekki þekkja til í Hraunborgum, sem eru í um rúmlega klukkustundar akstursfjarlægt frá höfuðborgarsvæðinu, má geta þess að þar er sérlega gott útivistarsvæði, bæði fyrir börn og fullorðna. Á svæðinu er m.a. minigolf, sparkvöllur, hjólaleiga, níu holu golfvöllur, leiktæki fyrir börn og útsýnisskífa þar sem hægt er að sjá hvernig landið liggur og læra helstu örnefni nágrennisins.
Öllum starfsmönnum er velkomið að sækja um og er farið eftir reglunni “fyrstur kemur, fyrstur fær”. Vinsamlega sækið um orlofshúsin á heimasíðu Hrafnistu, hrafnista.is.
Starfsafmæli í ágúst
Nú í ágúst fögnuðu formlegu starfsafmæli eftirfarandi starfsmenn okkar hér á Hrafnistu:
3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Þorgerður Kr Guðmundsdóttir, Inga Guðrún Sveinsdóttirog Sigurlaug Díana Kristjánsdóttir, allar í iðjuþjálfun og félagsstarfi. Í Hafnarfirði eru það Tanja Kristóbertsdóttir á Báruhrauni og Ragnheiður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur. Einnig Erla Ólafsdóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar í Kópavogi.
5 ára starfsafmæli: Nanna Guðný Sigurðardóttir gæðastjóri, Tómas Þór Jacobsen í borðsal í Hafnarfirði og Maribeth Encarquez Ycot í Kópavogi.
10 ára starfsafmæli: Hanna Gunnlaugsdóttir í eldhúsi og Perla Thoa Kim Thai í borðsal, báðar í Reykjavík. Niu Jianying og Dagrún Magnúsdóttir á Öldruhrauni, báðar í Hafnarfirði.
15 ára starfsafmæi: Penka Krasteva Koylasova á Engey/Viðey í Reykjavík og Eygló Sævarsdóttir í eldhúsi í Hafnarfirði.
Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir góð störf og tryggðina við Hrafnistu.
Góða helgi!
Pétur