Í Morgunblaðið í dag, 26. febrúar, ritar Anna Sigríður Árnadóttir, fyrrverandi menntaskólakennari, áhugaverða blaðagrein sem Hrafnista leyfir sér hér með að birta í heild sinni:
„Ég hef hingað til ekki kært mig um að bera sjúkrasögu mína á torg í blöðum, en nú er svo komið að ég get ekki lengur staðið hlutlaus hjá og orða bundist. Ég er það sem í dag er kallað »langveik« og hef verið það í 30 ár. Ég starfaði sem menntaskólakennari en varð að láta af störfum af heilsufarsástæðum allt of snemma, sem var afar erfitt þar sem ég unni mjög starfi mínu.
Frá árinu 2010 versna veikindin mjög, eitt tekur við af öðru og árið 2014 er svo komið að hjólastóllinn er kominn í hús, gigtin batnar ekki og bæði hné búin. Ég þráaðist við og gat ekki hugsað mér að setjast baráttulaust í hann. Læknar mínir treystu mér illa í hnéliðaskipti, m.a. vegna annarra sjúkdóma og því bentu læknar mér á dagþjálfun Hrafnistu sem undirbúning fyrir hnéliðaskipti. Ég fékk hálfgert áfall, fædd 1946, en þar með orðin nógu gömul til að geta sótt um þar. Það var gert og það var kvíðin kona sem þar mætti fyrsta daginn. Það var óþarfi því allir sem að þeirri deild koma eru yndislegt fólk, vinna afar faglega og sýna fólki virðingu, hlýju og tillitssemi. Þarna var ég í nokkrar vikur að búa mig undir aðgerðina. Þessu fólki sendi ég öllu mínar innilegustu þakkarkveðjur.