Hrafnista Laugarás, Reykjavík
„Bóndadagurinn er í dag og haldið var þorrablót með öllu tilheyrandi í hádeginu. Gígja Þórðardóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar á Hrafnistu í Laugarási flutti minni karla og Aríel Pétursson formaður Sjómannadagsráðs flutti minni kvenna. Bragi Fannar fór um húsið með nikkuna og við lukum gleðinni með sherrýstund og gítarleik Fanneyjar á Skálafelli. Óskum íslenskum karlmönnum til hamingju með daginn og þess að Þorrinn reynist góður og gjöfull.“
Hrafnista Nesvellir, Reykjanesbæ
„Hið árlega þorrablót var haldið á Nesvöllum í hádeginu í dag. Við gæddum okkur á dýrindis þorramat frá Múlakaffi og skáluðum í íslensku brennivíni og Marína kom og söng fyrir okkur með sinni undur fögru röddu.
Gaman hve margir aðstandendur gáfu sér tíma til að koma og eiga gæðastund með okkur í dag.“
Hrafnista Skógarbæ, Reykjavík
„Það hefur verið mikið um að vera hjá okkur þessa vikuna eins og oft áður. Við skelltum okkur á pílumót í gær á Hrafnistu í Hafnarfirði og etjuðum kappi við íbúana þar, fengum svo þvílíku kræsingarnar eftir að móti lauk. Við héldum svo bóndadaginn hátíðlegan í hádeginu í dag og borðuðum dýrindis þorramat og skoluðum honum niður með íslensku brennivíni.“
Meðfylgjandi myndir voru teknar í hádeginu í dag á Hrafnistu Laugarási, Nesvöllum og Skógarbæ.