Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Tilgangur:
Framferði starfsmanna í vinnu og utan hennar hefur áhrif á viðhorf samfélagsins til Sjómannadagsráðs og fyrirtækja þess. Siðareglur Sjómannadagsráðs og fyrirtækja þess eru grunnviðmið góðra viðskiptahátta og siðferðis stjórnenda og starfsfólks. Reglurnar gilda um samskipti starfsmanna við íbúa, ættingja, viðskiptavini, samstarfsmenn, eftirlitsaðila, samkeppnisaðila og aðra sem eiga hagsmuna að gæta. Siðareglunum er ætlað að vera leiðbeinandi um hvernig bregðast skuli við siðferðilegum álitamálum.
 
Markmið:
Að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að stjórnendur og starfsfólk Sjómannadagsráðs og fyrirtækja þess sýni af sér við sín störf. Jafnframt er markmiðið með siðareglunum að upplýsa um þær kröfur sem þeir geta gert til stjórnenda og starfsfólks fyrirtækja Sjómannadagsráðs.
 
Siðareglur Sjómannadagsráðs og fyrirtækja þess :
Stjórnendur fyrirtækja Sjómannadagsráðs helga sér eftirfarandi siðareglur og skapa starfsmönnum aðstæður til að fylgja þeim.
 
1. Trúnaður
Stjórnendum og starfsfólki ber að gera sér grein fyrir trúnaðarskyldum. Stjórnendur og starfsfólk skulu gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum, reglum eða eðli máls. Þeir skulu einnig virða trúnað varðandi ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum sem og innihald skjala eða annarra gagna sem þeir fá aðgang að vegna starfs síns og trúnaður skal ríkja um. Trúnað ber að halda áfram eftir að störfum lýkur.
 
2. Upplýsingagjöf
Fyrirtæki Sjómannadagsráðs bera ábyrgð á miklum verðmætum og mannauði. Starfsemi þeirra hefur áhrif á daglegt líf fjölda fólks og efnahag margra einstaklinga og fyrirtækja. Starfsmenn geta orðið fyrir beinum eða óbeinum utanaðkomandi þrýstingi þegar hagsmunir fyrirtækis, heimilisfólks og viðskiptavina þess fara ekki saman. Því er mikilvægt að afstaða starfsmanna og framkoma í allri málsmeðferð sé varkár, gagnrýnin og vönduð og að teknar séu ákvarðanir á faglegum forsendum.Stjórnendum og starfsfólki ber að svara fyrirspurnum um framkvæmd þeirra starfa sem þau bera ábyrgð á. Þeim ber ekki að veita neinar trúnaðarupplýsingar eða upplýsingar er varða einkalíf annarra starfsmanna eða þriðja aðila. Stjórnendum og starfsfólki ber að fylgja eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
 
3. Hollustuskylda, háttvísi, virðing og ábyrgð
Þess er ávallt krafist að starfsfólk sýni vinnuveitanda sínum hollustu. Starfsmanni ber að starfa í þágu fyrirtækisins og þjónustuþegna þess af vandvirkni, heiðarleika og samkvæmt bestu dómgreind. Koma skal fram við þjónustuþega af háttvísi og virðingu. Tileinka sér vinnubrögð sem skapað geta traust á starfi þeirra og stofnun. Stuðla skal að gegnsæjum starfsaðferðum og góðum samskiptum á vinnustað. Láta samstarfsfólk njóta sannmælis og sanngirni. Gæta skal að orðspori vinnustaðar í samskiptum utan vinnu. Virða skal skoðana- og tjáningarfrelsi og efla vitund um jafnrétti og önnur mannréttindi. Gæta þess að misbjóða ekki virðingu einstaklinga eða hópi einstaklinga t.d. hvað varðar kynferði, þjóðerni, kynþátt, litarhaft, menningu, tungumál, trúarbrögð, kynhneigð og stjórnmálaskoðanir. Vekja athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum og athöfnum. Axla ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum.
 
4. Gjafir og fríðindi
Stjórnendum og starfsfólki fyrirtækja Sjómannadagsráðs er óheimilt að þiggja gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptavinum, birgjum eða sölumönnum, nema verðmæti þess sé innan eðlilegra marka, sem ekki má ætla að hafi áhrif á afstöðu eða ákvarðanir þess sem tekur við þeim, né heldur sé hægt að leggja þann skilning í þær. Sé stjórnandi eða starfsmaður í vafa um slíkt, skal leita til næsta yfirmanns eftir samþykki. Stjórnendum og starfsfólki fyrirtækja Sjómannadagsráðs er óheimilt að þiggja boðsferðir sem tengjast viðskiptum fyrirtækjanna á einhvern hátt. Undantekningar geta verið þegar ferð er skipulögð af aðilum utan starfseminnar en ferðakostnaður og gisting er þá greidd af viðkomandi fyrirtæki Sjómannadagsráðs.
 
5. Hagsmunaárekstrar
Stjórnendur og starfsmenn skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Þegar stjórnandi á óbeinna eða beinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem er til umfjöllunar hjá Sjómannadagsráði eða félagi þess skal hann gera grein fyrir þessum hagsmunum áður en umræður fara fram. Ef stjórnandi telur vafa leika á um hagsmunaárekstra í starfi sínu skal hann bera málið upp við yfirmann sinn. Starfsmenn eða kjörnir fulltrúar mega aldrei eiga aðild að ákvörðunum um innkaup eða útboð er varða aðila sem þeim eru náskyldir eða hagsmunatengdir. Við umræðu um slík mál skal viðkomandi víkja af fundum. Ekki er heimilt að stjórnandi sinni annarri vinnu, sjálfstæðum rekstri eða félagsstörfum nema með leyfi næsta yfirmanns. Ef slíkt er heimilað skal gæta þess að það gangi ekki gegn markmiðum Sjómannadagsráðs eða valdi hagsmunaárekstri við störf viðkomandi fyrir fyrirtæki Sjómannadagsráðs.
 
6. Ábyrgð í fjármálum
Stjórnendum ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á tekjum Sjómannadagsráðs eða fyrirtækja þess. Vinna skal gegn sóun og ómarkvissri meðferð fjármuna. Við störf sín skulu þeir ekki aðhafast neitt sem felur í sér misnotkun á verðmætum Sjómannadagsráðs eða fyrirtækja þess. Aldrei skal taka við umboðslaunum eða loforðum um umboðslaun, fyrir hvers konar samningagerð við skyldustörf. Þiggðu aldrei mútur.
 
7. Stöðuveitingar
Stjórnendum ber að tryggja að störf eða stöðuveitingar byggist á hæfi einstaklingsins eingöngu og að hæfasti einstaklingurinn sé ávallt valinn í viðkomandi starf. Stjórnendur skulu í starfi sínu ekki gera neitt sem veitir þeim starfslegan ávinning í starfi eða eftir að þeir hafa látið af störfum. Stjórnendur skulu ekki hafa nána ættingja undir beinni stjórn sinni í starfseminni, nema í undantekningartilvikum sem eru þá ætíð í samráði við næsta yfirmann.
 
8. Samþykki
Stjórnendum og starfsmönnun fyrirtækja Sjómannadagsráðs ber að tileinka sér þessar siðareglur og lýsa því yfir að þeir séu reiðubúnir til að hafa þessar siðareglur að leiðarljósi. Siðareglur Sjómannadagsráðs og fyrirtækja þess eru hluti af starfsskyldum starfsmanna. Þær skulu vera aðgengilegar öllum starfsmönnum. Verði starfsmaður uppvís að því að brjóta gegn reglum þessum getur það leitt til áminningar eða jafnvel brottreksturs.
 
Siðareglur þessar voru samþykktar af stjórn Sjómannadagsráðs þann 6. nóvember 2018.

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur